Í mars flutti Icelandair 260 þúsund farþega og voru þeir 4% fleiri en í mars á síðasta ári að því er kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Framboðsaukning á milli ára nam 7% og sætanýting var 81,9% samanborið við 80,7% í sama mánuði í fyrra.

Farþegar Air Iceland Connect voru 28 þúsund í mars og fækkaði um 2% á milli ára. Framboð félagsins var aukið um 7% samanborið við mars 2017. Sætanýting nam 59,9%. Fjöldi seldra blokktíma í leiguflugi jókst um 25% á milli ára. Fraktflutningar jukust um 5% frá því á síðasta ári.

Fjöldi framboðinna herbergjanótta jókst um 4% á milli ára, sem skýrist af opnun Reykjavík Konsúlat hótelsins í miðbæ Reykjavíkur. Herbergjanýting á hótelum félagsins dróst saman á milli ára var 78,0% samanborið við 86,0% í fyrra.  Lakari herbergjanýting er sögð skýrast aðallega af Reykjavík Konsúlat hótelinu en fyrsti rekstrarmánuður nýs hótels er iðulega með lága herbergjanýtingu þar sem það hefur ekki verið bókanlegt nema í stuttan tíma.