Að sögn Samtaka ferðaþjónustunnar munu allt að fjögurra milljarða álögur leggjast á bílaleigur um næstu áramót, 1. janúar 2018, þegar bílaleigubílar fara í efsta þrep vörugjalda samkvæmt boðuðum breytingum. Samtök ferðaþjónustunnar lýsa yfir furðu sinni á samráðsleysi og aðgerðarleysi stjórnvalda í skoðun á skattbyrði bílaleiga þrátt fyrir loforð þar um og ítrekaðar fyrirspurnir. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá samtökunum.

Bílaleigubílar eins og leigubílar og sérútbúnar bifreiðar hafa verið skilgreind sem atvinnutæki og því greitt vörugjöld samkvæmt sér vörugjaldaflokki. Það sama á við um önnur atvinnutæki sem ekki bera vörugjöld, en bílaleigubílar verða við boðaða breytingu einu atvinnutækin sem bera full vörugjöld. Gangi boðaðar breytingar eftir mun bílaleigum verða gert nánast ómögulegt að selja notaðar bifreiðar úr landi og var það þó erfitt fyrir.

Fjármögnun á nýjum bílum þyngist vegna þessara aðgerða að sögn SAF og munu bílaleigubílar því eldast með tilheyrandi áhrifum á umferðaröryggi og gæði. Erlendir ferðamenn á bílaleigubílum munu líklega minnka akstur og komum á dreifðari byggðir fækka.

„Samtökin kalla eftir því að stjórnvöld hefji boðað samráð um skattbyrði bílaleigufyrirtækja í samráði við fyrirtækin með málefnaleg sjónarmið að leiðarljósi, og fresti breytingum á skattaumhverfi bílaleiga þar til niðurstaða er komin í þau mál,“ segir að lokum í tilkynningu frá Samtökum ferðaþjónustunnar.