Fjögurra milljarða skuld Gagnaveitu Reykjavíkur við Orkuveitu Reykjavíkur verður breytt í hlutafé en þessi ákvörðun er gerð með fyrirvara Póst- og fjarskiptastofnunar. Gagnaveitan skuldar Orkuveitunni aðra fjóra milljarða sem gert er ráð fyrir að verði greiddir upp á sama tíma. Fjármagna á uppgreiðsluna með lántöku á almennum markaði en fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag.

Þessar breytingar eru liður í áætlun Orkuveitunnar um að selja 49% hlut í Gagnaveitunni. Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður Orkuveitunnar segir þetta sé ekki viðurkenning á því að lánið væri tapað fé. „Nei, það er von til þess að hlutaféð seljist. Vissulega varð Gagnaveitan fyrir höggi, gengistapi og öðru. Þetta endurspeglar það. Nú er unnið að breytingu á fjármagnsskipan fyrirtækisins og að færa það úr fangi Orkuveitunnar til að gera það seljanlegra,“ segir Haraldur Flosi.