Atvinnuleysi hér á landi í ár verður líklega það mesta sem verið hefur frá því að mælingar Hagstofunnar hófust árið 1957, en samt sem áður stendur landið þokkalega í alþjóðlegu samhengi.

Þó atvinnuleysið stefni í að vera 0,2 prósentustigum meira í ár en 2008 segir í greiningu Tryggva Snæs Guðmundssonar hagfræðings Íslandsbanka að von sé til þess að horfur á atvinnumarkaði nú séu heldur bjartari til kröftugrar viðspyrnu en var þá.

Í greiningunni veltir höfundur því jafnframt fyrir sér hvað gerist þegar stuðningsaðgerðir stjórnvalda renna út á komandi ársfjórðungum. Í heild hefur atvinnuleysið aukist um 150% að meðaltali frá ágústmánuði síðasta árs.

Mest var aukningin á Suðurlandi þar sem atvinnuleysið hefur aukist um 250%, en minnst á Vestfjörðum þar sem aukningin er 77%, sem væntanlega endurspeglar misjafna uppbyggingu ferðaþjónustunnar á landinu.

134 hópuppsagnir á árinu

Samtals misstu 8.477 manns störf sín í 134 hópuppsögnum frá 20. janúar til 20. september, sem gerir um 4% af vinnuafli þjóðarinnar. Bæði bankinn, sem og Hagstofan spá 7,8% atvinnuleysi á árinu, sem er 0,2% meira en fyrra met frá árinu 2008.

Eins og Viðskiptablaðið sagði þó frá í morgun eru um 3 þúsund störf í boði í hagkerfinu eins og sakir standa en nærri 13 þúsund manns eru atvinnulausir.

Síðan kórónuveirufaraldurinn hófst í ársbyrjun hefur atvinnuleysi ríflega tvöfaldast frá fyrra ári í Kanada og á Íslandi, meðan atvinnuleysið hefur fjórfaldast í Bandaríkjunum.

Hins vegar standa Norðurlöndin betur að vígi, en þar hefur þó starfandi einstaklingum fækka um að jafnaði fjórðung. Ferðaþjónustan er þó mun stærri hluti íslensks atvinnulífs en þar.