Marel hækkaði mest í næst mestu viðskiptum í kauphöll Nasdaq á Íslandi í dag, eða um 2,79%, upp í 626,0 krónur, í 188,4 milljóna króna viðskiptum. Heildarviðskiptin í kauphöllinni í dag voru tiltölulega lítil eða fyrir 631,9 milljónir króna og fór Úrvalsvísitalan upp um 1,44%, eða í 1.870,37 stig.

Mestu viðskiptin voru hins vegar með bréf Arion banka, eða fyrir 255,3 milljónir króna, sem samsvarar um 40% allra viðskipta í kauphöllinni í dag. Bréf bankans lækkuðu um 0,17%, niður í 57,10 krónur. Þriðju mestu viðskiptin voru svo með bréf Símans, eða fyrir 90 milljónir króna, og enduðu þau í 6 krónum eftir 0,50% hækkun.

Næst mest hækkun var á gengi bréfa Brim, í litlum viðskiptum þó, eða fyrir 429 þúsund krónur, en bréfin hækkuðu um 2,24%, upp í 41 krónu. Þriðja mesta hækkunin var á bréfum Origo, eða um 1,49%, upp í 23,85 krónur, í 46 milljóna króna viðskiptum.

Icelandair lækkaði hins vegar langmest, eða um 11,11%, niður í 1,60 krónur, í 19 milljóna króna viðskiptum.

Næst mesta lækkunin var á gengi bréfa VÍS, eða um 1,20%, niður í 9,85 krónur og þriðja mesta lækkun var svo á gengi bréfa Reita, eða um 0,90%, í 13 milljóna króna viðskiptum og var lokagengi bréfanna 49,60 krónur.

Gengi krónunnar styrktist gagnvart breska pundinu, japanska jeninu og sænsku og norsku krónunni í dag, en veiktist gagnvart evru, Bandaríkjadal, dönsku krónunni og svissneska frankanum af helstu viðskiptamyntum sínum.

Þannig styrktist evran um 0,13% gagnvart íslensku krónunni, og fæst hún nú á 157,99 krónur, dalurinn styrktist um 0,46%, upp í 146,15 krónur, en breska pundið veiktist um 0,25%, og fæst nú á 180,30 krónur.