Ráðlagt er 3% aukning á veiðum á þorski í nýrri ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar á ástandi nytjastofna fyrir komandi fiskveiðiár haustið 2018 til 2019. Aukningin nemur 6.865 tonnum svo að heildaraflamarkið verður 264.437 tonn.

Mun meiri aukning er á ráðlögðu aflamarki ýsu, eða um 40%, en jafnframt er mikil aukning í ufsanum, eða 30%. Verða því heimilaðar veiðar á 57.982 tonnum á ýsu en ufsaveiðarnar gætu aukist úr 60.237 tonnum í 79.092 tonn milli ára ef aflamarkið verður fullnýtt.

Humar og sumargotssíldin í lágmarki

Á sama tíma og fyrrnefndar tegundir hafa skilað stórum nýjum árgöngum er hrygningarstofn gullkarfa í lágmarki og verða veiðar á honum lækkaðar um 14% á nýju fiskveiðiári, eða niður í 43.600 tonn.

Þar af koma 90%, eða 39.240 tonn í hlut Íslendinga, en Grænlendinar fá restina samkvæmt samkomulagi þjóðanna. Jafnframt munu 13.500 tonn af 24.150 tonna heildarkvóta af grálúðu koma í okkar hlut, en hann er óbreyttur milli ára.

Íslenska sumargotssíldin hefur minnkað um nærri 60% á undanförnum áratug í stofnstærð en nú er lækkun á aflamarki úr honum um 9% og nemur það um 35.186 tonnum. Humarstofnin er einnig í sögulegu lágmarki og ráðleggur stofnunin að einungis verði leyfðar veiðar á 1.150 tonnum af tegundinni. Það er minnkun um 11,5% en stofnunin býst við að áfram verði dregið úr veiðum í stofninum.

Ráðgjöf fyrir flatfiskastofna er lítið breytt frá síðasta fiskveiðiári, að undanskildri þykkvalúru þar sem ráðlagt aflamark eykst um 20%, í 1565 tonn. Lækkun aflamarks er lögð til fyrir blálöngu, löngu, keilu, skötusel og gulllaxi. Ráðgjöf fyrir steinbít hækkar úr 8540 tonnum í 9020 tonn.