Markaðsverð bitcoin hefur fallið um meira en helming frá því að gengi rafmyntarinnar náði hæstu hæðum í nóvember síðastliðnum. Um 40% þeirra sem eiga bitcoin hafa nú tapað á fjárfestingu sinni eftir miklar lækkanir í vikunni, samkvæmt greiningu Glassnode. CNBC greinir frá.

Virði rafmynta hefur lækkað hratt í vikunni og hefur verð á bitcoin fallið um 20% á einni viku og stendur nú í 31,2 þúsund dölum.

Sjá meira: Nærri tíundi hver fjárfest í rafmyntum

Fjöldi „tafarlausra færslna“ á síðustu dögum, þar sem fjárfestar greiða hærra færslugjald til að stytta afgreiðslutíma, jókst töluvert í vikunni. Heildarvirði allra færslugjalda af þessu tagi náði 3,07 bitcoin yfir síðastliðna viku og hefur aldrei verið hærra.

Einnig kemur fram að ekki hefur verið meira flæði fjármagns inn og út úr rafmyntakauphöllum frá því í nóvember.