Um 40% heimila landsins eru með aðgang að Síminn Sport, sem er með sýningarréttinn að ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Þetta kemur fram í nýbirtu uppgjöri Símans. Sýningarétturinn færðist frá Sýn yfir til Símans fyrir yfirstandandi tímabil, sem hófst í ágúst. Í síðasta uppgjöri félagsins, sem birt var í ágúst kom fram að um þriðjungur heimila væru með áskrift að enska boltanum.

Sjá einnig: Síminn boðar frekari fækkun starfsmanna

Í uppgjörinu segir að áskriftasala hafi gengið betur en búist var við. „Síminn Sport hefur notið velgengni umfram væntingar frá því varan fór í loftið á miðjum þriðja fjórðungi. Vel hefur til dæmis gengið að semja um dreifingu vörunnar yfir öll fjarskipta- og sjónvarpsdreifikerfi landsins. Nær enska úrvalsdeildin til allra landsmanna og við sjáum áhugann fara vaxandi, með þeirri vönduðu og sérlega hagstæðu þjónustu sem Síminn Sport er. Við höfum því áfram góðar væntingar til vörunnar næstu mánuði," segir Orri Hauksson, forstjóri Símans.

Sjá einnig: Missa „hjartað“ yfir til Símans

Í uppgjörinu kemur jafnframt fram að Premium TV viðskiptavinum hafi fjölgað um 3.000 frá því Síminn Sport fór í loftið. Auglýsingatekjur uxu um 54% á fjórðungnum og 11% milli ára. Heimilspökkum fjölgaði um 5.100 milli ára og tekjur Símans af Premium TV þjónustu um 330 milljónir króna eða 30%. Þá hafi kostnaður við Símann Sport verið samkvæmt væntingum.

Gengið hægt að semja við Sýn

Þá á Síminn í viðræðum um aldreifingu fyrir Sjónvarp Símans Premium sem hefur ekki gengið sem skildi. „Ástæðan er mótstaða Sýnar gegn því að selja aðgang að dreifikerfum í sinni umsjá fyrir Sjónvarp Símans Premium, sem er sú íslenska efnisveita sem langmest er notuð. Síminn verður þannig af möguleikum til aukinnar tekjusköpunar samhliða því að IPTV viðskiptavinir Sýnar hafa ekki möguleika á að kaupa Sjónvarp Símans Premium. Þessi skekkja mun vonandi leiðréttast á næsta ári," segir Orri.