Hluthafar Kaupþings Búnaðarbanka hf. hafa samþykkt heimild til hækkun hlutafjár sem selt yrði erlendum fjárfestum og gæti aflað bankanum yfir 40 milljarða króna. Þessi hlutafjáraukning er viðbót við 40 milljarða hækkunina á eigin fé sem notuð var til að fjármagna kaupin á danska bankanum FIH. Stjórn bankans hefur ákveðið að ganga til samninga við Deutsche Bank um markaðssetningu og sölu á hinu nýja hlutafé, að nafnvirði allt að 110 milljónum króna. "Kaup okkar á FIH hafa vakið athygli á okkur og höfum við fundið fyrir áhuga frá erlendum fjárfestum," segir Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri KB banka. "Við erum ákveðin í að láta reyna á raunverulegur viðtökur og ef vel tekst til mun svigrúm okkar til frekari vaxtar aukast," segir Hreiðar Már og kveðst ekki útiloka að gangi sala hlutafjárins hratt fyrir sig muni bankinn huga að frekari kaupum á erlendum vettvangi síðar á þessu ári.

Kaupin á FIH í Danmörku hafa þegar verið fjármögnuð með hlutafjáraukningu og víkjandi lánum en framangreindri hlutafjáraukningu er fyrst og fremst ætlað að styrkja efnahag bankans og tækifæri hans til frekari stækkunar. Í þeim efnum hefur talsvert verið rætt um hugsanleg kaup á auknum hlut KB banka í breska bankanum Singer & Friedlander. Um þann valkost fremur en aðra vildi Hreiðar Már ekki tjá sig en lét þess þó getið að starfsemin í London gengi vel og að bankinn ætlaði sér aukin umsvif á þeim vettvangi í framtíðinni.

Við hlutafjárhækkunina verður tekið mið af núverandi gengi bréfa í KB banka sem er 420 en Hreiðar Már telur ólíklegt að öll heimildin verði notuð en það myndi auka eigið fé bankans um rúma 40 milljarða í viðbót við hlutafjáraukninguna til forgangsrétthafa.

Hlutafjáraukningin ætti ekki að hafa áhrif á markaðinn hér á landi því að hún beinist eingöngu að erlendum fjárfestum. Kaupþing Búnaðarbanki hf. er skráður á Íslandi og í Stokkhólmi og Hreiðar Már segir að ekki sé stefnt að skráningu í öðrum erlendum kauphöllum.

Hluthafafundur í KB banka samþykkti einnig aukningu hlutafjár að upphæð 40 milljarða króna til forgangsrétthafa, en það eru þeir sem áttu hlut í KB banka þann 5. júlí. Fjöldi hluta verður 110 milljónir en útboðsgengið verður 360 krónur á hlut. Hver hlutur veitir rétt til að kaupa 0,25 hluti. Greiða þarf fyrir nýju hluti fyrir 20. ágúst næstkomandi.

Hlutafjáraukning KB banka er að þeirra stærðargráðu að hún hefur áhrif á markaðinn að einhverju leyti. Helst minnkar hún líkur á einkavæðingu Símans og skráningu nýrra félaga á markað.