Afskriftir vegna skulda 1998 ehf., sem áður átti Haga. Bankinn tilkynnti í gær að Búvellir slhf. hefur fest kaup á 34% hlut í Högum fyrir 4.140 milljónir króna auk þess sem félagið hefur tryggt sér kauprétt á 10% hlut útgefinna hluta til viðbótar. Markaðsvirði Haga er um 12,5 milljarðar króna.

Samkvæmt nýbirtum ársreikningi 1998 ehf. stóð skuld félagsins við Arion í 55 milljörðum króna í árslok 2009. Lánið var fært úr Kaupþingi yfir í Arion banka á mjög lágu verði gegn því að þrotabú Kaupþings myndi fá hluta af endurheimtum þess. Mismunurinn á því og kaupverðinu verður því tap í bókum þrotabús Kaupþings, ekki hjá Arion.

Arion tók Haga yfir árið 2009 eftir að eigandi samstæðunnar, 1998 ehf., gat ekki staðið við skuldbindingar sínar. 1998 ehf. var í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, fjölskyldu hans og nánustu samstarfsmanna hennar. Félagið var látið kaupa 95,7% hlut í Baugi í júlí 2008, rúmum tveimur mánuðum fyrir bankahrun, á 30 milljarða króna. Eigendur Baugs voru að mestu þeir sömu og áttu 1998 ehf. Því voru sömu aðilar að selja eignina sín á milli. Kaupþing, fyrirrennari Arion, lánaði fyrir kaupunum að fullu.

10-11 tekið út

Hagar eru stærsta smásölufyrirtæki á Íslandi. Innan samstæðunnar eru fyrirtækin Bónus, Hagkaup, Aðföng, Hýsing, Útilíf, Debenhams, Ferskar kjötvörur, Noron (sem rekur Zöru), Sólhöfn (sem rekur ýmsar fataverslanir) og Bananar. 10-11 verslunarkeðjan var einnig hluti af samstæðunni fram í september í fyrra þegar Arion ákvað að færa keðjuna inn í sér rekstrarfélag. Til stendur að selja 10-11 en sem stendur heldur dótturfélag Arion banka á 100% hlut í því.