Evrópskir bankar gætu neyðst til að setja jafnvirði 40 milljarða evra af auknu fjármagni inn í deildir sínar í Bretlandi í kjölfar útgöngu landsins úr Evrópusambandinu.

Óvissa frá þjóðaratkvæðagreiðslu

Þetta kemur fram í skýrslu frá Boston Consulting Group. Segir þar jafnframt að útgangan gæti einnig þýtt 8-22% hækkun í árlegum kostnaði við fjárstýringu sem gæti dregið úr áhuga lánveitenda.

Starfsemi erlendra banka hefur verið í ákveðinni óvissu síðan þjóðaratkvæðagreiðslan var í Bretlandi, en reglur Evrópusambandsins leifa bönkum sem starfa í einu landi að starfa í öllum löndum sambandsins.

Þarf ekki sérstaka fjármögnun

Nú þurfa evrópskir bankar sem starfa í Bretlandi ekki að hafa eigin sjálfstæðu fjármögnun fyrir deildir sínar í Bretlandi, heldur geta þeir byggt á heildarfjármögnun fyrirtækisins í allri Evrópu.

En með úrsögn Bretlands gætu fyrirtækin þurft að setja upp sjálfstæð fyrirtæki á Bretlandseyjum. Segja rannsakendur BCG að „Bæði Bretland og ESB gætu heimtað að slík dótturfyrirtæki, sértaklega fyrir stóra og mikilvæga banka, séu vel fjármögnuð, líkt og við sjáum í Bandaríkjunum.“

Gætu þurft að hafa starfssemina tvöfalda

Ef einungis er horft til þýskra banka í Bretlandi þyrftu þeir aukna fjármögnun sem næmi 10 milljörðum evra og svipað í lánveitingum. Segja rannsakendur að London gæti misst hluta af þeirri fjármálastarfssemi sem snýr að evrópskum fjármálaviðskiptum, en þau nema um 50 til 70% af fjármálastarfsemi í borginni.

Bankar gætu jafnvel þurft að halda úti tvöfalldri starfssemi, annars vegar í Bretlandi og hins vegar í Evrópu varðandi sölumál og aðra starfsemi.

„Ljóst er að möguleikar banka til að halda starfssemi sinni á einum stað og viðhalda stærðarhagkvæmni með staðsetningu í London er nú í óvissu,“ segir í skýrslunni.