Ekkert fékkst upp í 41,8 milljóna krónu í þrotabú félagsins Straumhyls. Félagið hét áður 3 Sagas og voru stofnendur þess Bjarni Haukur Þórsson, Árni Þór Vigfússon og Kristján Ra. Kristjánsson. Tilgangur félagsins var framleiðsla á kvikmyndum og sjónvarpsefni. Reksturinn gekk ekki betur en svo að félagið var úrskurðað gjaldþrota 18. janúar síðastliðinn.

Þeir Árni Þór og Kristján komu nálægt rekstri Skjás Eins á sínum tíma en komu ekki vel undan þeim rekstri.

Ekki gekk rekstur 3 Sagas heldur vel. Fyrirtækið setti upp nokkur leikrit í Svíþjóð. Þar á meðal var Pabbinn, með Barna Hauki í aðalhlutverki. Reksturinn gekk illa og í fengu um hundrað starfsmenn fyrirtækisins, hvorki leikarar né aðrir ekki greidd laun um tíma. Í nóvember árið 2010 greindi DV svo frá því að sænska ríkið hafi hlaupið undir bagga og greitt starfsfólkinu laun úr ábyrgðasjóði launa. Skuldamál 3 Sagas voru hins vegar enn óleyst.

Ekki liggja fyrir nýrri ársreikningar en frá árinu 2006. Það ár námu eignir félagsins 17,5 milljónum króna og eigið fé var neikvætt um 14,3 milljónir.

Þremenningarnir sem nefndir voru hér að ofan hafa allir yfirgefið félagsins. Eigendur þess undir það síðasta voru Þóroddur Stefánsson og Maco- hugmyndir, sem er í eigu Mariko Margrétar Ragnarsdóttur, konu Árna Þórs.

Eins og áður segir eru nýjustu fjárhagsupplýsingar frá árinu 2006, en árið 2010 sagði í frétt DV að félagið hafi runnið saman við sænska félagið Proscenia Holding og að hið sameinaða félag hafi þá skuldað um 850 milljónir íslenskra króna.