Ferðamálaráð Íslands úthlutar að þessu sinni 40 milljónum króna vegna úrbóta í umhverfismálum á árinu 2005. Samgönguráðuneytið fer með málefni íslenskrar ferðaþjónustu, og hefur ráðuneytið m.a. lagt áherslu á að íslensk náttúra verði ekki fyrir skaða af völdum þeirra fjölmörgu ferðamanna sem njóta hennar.

Fjöldi ferðamanna sem sækir landið heim eykst ár frá ári og er ljóst að árið 2004 verður enn eitt metárið í íslenskri ferðaþjónustu. Uppbygging á ferðamannastöðum og fyrirbyggjandi aðgerðir til verndunar á íslenskri náttúru eru mikilvægir liðir í því að sporna gegn ágangi á íslenska náttúru.

Undanfarin ár hefur umtalsverðum fjármunum verið veitt til uppbyggingar á ferðamannastöðum víðsvegar um landið og frá því verður ekki horfið á árinu sem er að hefjast.

Athygli er vakin á því að umsóknarfrestur er til 17.janúar 2005.