Sveitarfélögin eru einn stærsti vinnuveitandi landsins með ríflega 20.400 stöðugildi. Í Reykjavík fækkaði stöðugildum um 90 milli áranna 2014 og 2015, sem jafngildir 1,2% fækkun. Á Akureyri fækkaði stöðugildum um 28 eða 1,8%.

Aukning varð milli ára hjá öllum hinum stóru sveitarfélögunum. Þannig fjölgaði stöðugildum um 40 á milli ára í Garðabæ eða 6%, 37 í Hafnarfirði (3%), 27 í Árborg (5%) og 15 í Kópavogi (1%). Hlutfallslega fjölgaði stöðugildum mest í Mýrdalshreppi. Þar fjölgaði stöðugildum úr 28 í 48 eða um 74%. Stöðugildum í Hörgársveit fjölgaði einnig mikið eða úr 31 í 47 eða um 51%. Hlutfallslega fækkað stöðugildum mest í Skaftárhreppi. Þar fækkað stöðugildum úr 39 í 25 eða um 36%. Á Skagaströnd fækkað stöðugildum úr 47 í 32 eða um 32%.

Stöðugildi sveitarfélaga
Stöðugildi sveitarfélaga

Önnur leið til að skoða fjölda stöðugilda hjá sveitarfélögum er að reikna hversu margir íbúar eru á bak við hvert stöðugildi. Þegar þetta ert skoðað er miðgildið 15 íbúar á hvert stöðugildi. Á Íslandi eru 16 sveitarfélög með meira en 3.000 íbúa. Af þeim eru Akureyri og Sveitarfélagið Skagafjörður með fæsta íbúa á hvert stöðugildi eða 12 en Reykjanesbær með flesta íbúa á hvert stöðugildi eða 21.

Af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu er Reykjavík með 16 íbúa á hvert stöðugildi, Mosfellsbær 18 og Hafnarfjörður, Kópavogur og Seltjarnarnes 19. Áhugavert er að Garðabær er með 20 íbúa á hvert stöðugildi þrátt fyrir að stöðugildum þar hafi fjölgaði töluvert milli ára eins og áður sagði.

Tvö sveitarfélög skera sig algjörlega úr þegar fjöldi íbúa á hvert stöðugildi er reiknað en það eru Ásahreppur, sem er með 166 íbúa á hvert stöðugildi og Skorradalshreppur, sem er með 124 íbúa á hvert stöðugildi. Sjálfsagt er að taka fram að íbúar þessara sveitarfélaga sækja þjónustu annað því einungis eru 1,3 stöðugildi í Ásahrepp og 0,5 í Skorradalshreppi. Að teknu tilliti til íbúafjölda eru stöðugildin dýrust í Reykhólahreppi, þar sem einungis 7 íbúar eru á hvert stöðugildi og Vopnafjarðarhreppi, þar sem 8 íbúar eru á hvert stöðugildi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .