Nýskráningar nýrra fólksbifreiða hafa dregist töluvert saman það sem af er þessu ári. Frá áramótum og til loka júlímánaðar hafði 9.481 bíll verið nýskráður en á sama tímabili í fyrra voru þeir 15.717 samkvæmt gögnum frá Samgöngustofu. Hafa nýskráningar nýrra fólksbíla því dregist saman um tæplega 40% á fyrstu sjö mánuðum ársins frá sama tímabili í fyrra. Þess ber að geta að um er að ræða nýskráningar allra fólksbíla og því eru kaup fyrirtækja eins og bílaleiga einnig inni í tölunum.

Nýskráningar nýrra fólksbíla á síðustu 12 mánuðum voru 14.979 sem er 35% lækkun frá sama tímabili fyrir ári síðan. Nýskráningar hafa dregist nær samfellt saman frá janúar 2018 þegar þær náðu 12 mánaða sögulegu hámarki sínu upp á 26.138 bíla en hafa síðan þá lækkað í hverjum mánuði miðað við sama mánuð árið á undan. Nýskráningar síðustu 12 mánaða eru nú á svipuðum stað og þær voru í nóvember árið 2015. Til samanburðar má nefna að 15.944 fólksbílar voru nýskráðir árið 2007 og 17.127 árið 2006. Nýskráningar á tólf mánaða tímabili höfðu þá hækkað um tæplega 150% frá árinu 2014 og vaxið samfellt frá árunum 2009 og 2010 þegar 2.211 og 3.095 fólksbílar voru nýskráðir.

31% samdráttur í bílalánum

Á sama tíma og nýskráningar hafa dregist saman hafa ný bílalán íslenskra heimila að frádregnum uppgreiðslum dregist saman um 31% á fyrstu sjö mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Samtals námu nýjar lánveitingar til bílakaupa tæpum 6 milljörðum króna á fyrrgreindu tímabili en voru rúmlega 8,7 milljarðar á sama tímabili í fyrra samkvæmt gögnum frá Seðlabanka Íslands.

Nýjar lánveitingar til bílakaupa á síðustu 12 mánuðum námu um 10,3 milljörðum króna í júlí en námu 14,1 milljarði á sama tíma í fyrra og hafa því dregist saman um 24% milli ára. Þess ber þó að geta að íslensk heimili höfðu ekki tekið jafn háa upphæð að láni til bílakaupa í einum mánuði frá hruni eins og í júlí í fyrra þegar lánveitingar námu 1,8 milljörðum auk þess sem júní árið 2018 var sá næststærsti frá hruni. Ný bílalán yfir 12 mánaða tímabil höfðu þá vaxið um tæp 50% frá því í mars 2016 en eru nú á svipuðum stað og í júlí sama ár.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .