Um 40% íbúða í nýju fjölbýlishúsinu í nýrri byggð á Kársnesinu í Kópavogi hafa selst en um er að ræða 24 íbúða fjölbýlishús við Hafnarbraut 9 í Kópavogi. Sala á íbúðum í húsinu hófst í lok október en áætlað er að íbúðirnar verði afhentar í maí næstkomandi.

Íbúðirnar í húsinu eru tveggja til fjögurra herbergja, frá 59,3 fm til 172,4 fm að stærð. Við byggingu hússins var lögð áhersla á að lágmarka viðhald þess. Lokað bílageymsluhús er í kjallara og fylgir rafmagnstengill hverju stæði. Viðskiptablaðið sagði frá því á sínum tíma þegar salan hófst en alls er gert ráð fyrir að á svæðinu rísi um 700 íbúðir , þar af 78 á Hafnarbraut 9 til 15 .

Fanney Magnúsdóttir, verkefnastjóri hjá Kársnesbyggð ehf sem er lóðarhafi og jafnframt byggingaraðili hússins segir ánægjulegt að sjá hversu vel hafi gengið með söluna í þessu fyrsta húsi sem rís í nýja hverfinu.

„Þetta er sannarlega góð byrjun og við erum jartsýn á áframhaldandi gott gengi. Þetta er spennandi verkefni bæði þetta nýja fjölbýlishús og hverfið í heild sinni sem verður mjög fallegt og á einum besta stað miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu með nálægð við sjóinn og smábátahöfnina,” segir Fanney.

Hún segir jafnframt fyrirhugað að þessi nýja byggð muni rísa öll í einni lotu á næstu fjórum til fimm árum. Skipulagi og hönnun svæða er að mestu lokið og framkvæmdir hafnar á stórum hluta. Lóðirnar, þar sem ný hús eru nú í byggingu, eru flestar við göturnar Hafnarbraut, Vesturvör, Bakkabraut og Bryggjuvör á Kársnesi.

„Um er að ræða uppbyggingu í grónu hverfi þar sem hægt er að sækja nánast alla þjónustu í næsta nágrenni ásamt því að stutt er í nýjan grunnskóla og leikskóla. Með nýrri brú yfir Fossvoginn munu almenningssamgöngur og umferð fyrir gangandi og hjólandi stórbatna og stytta leið yfir á háskólasvæðið og miðbæ Reykjavíkur.“

Nánar má sjá um íbúðir og hverfið á karsnes.is, en Íslenskar fasteignir fara með umsjón með verkefninu.

Nýja húsið á Hafnarbraut 9 sem nú er í byggingu
Nýja húsið á Hafnarbraut 9 sem nú er í byggingu
© Aðsend mynd (AÐSEND)