48% svarenda í könnun Viðskiptablaðsins í byrjun vikunnar töldu aðhaldsstig peningastefnunnar hæfilegt um þessar mundir og aðeins tæp 40% töldu það of lítið, en þrír af hverjum fjórum þeirra töldu það „aðeins of lítið“. Ríflega 10% töldu það aðeins of mikið.

Svarendur voru einnig spurðir út í væntingar til stýrivaxtaákvörðunar næstu viku og töldu nær allir líkur á hækkun, en afar mjótt var á munum milli þess hvort hún verði 0,25% eða 0,5%.

Könnunin var gerð dagana 30. til 31. janúar – síðastliðinn mánudag og þriðjudag – og náði til á um 200 sérfræðinga, miðlara, greiningaraðila og fleiri. Alls barst 91 svar. Þess má geta að á mánudagsmorgun, stuttu áður en könnunin var send út, birti Hagstofan janúarmælingu sína fyrir vísitölu neysluverðs sem náði 9,9% 12 mánaða hækkun í annað sinn nýverið og hefur nú verið yfir 9% samfleytt frá því í júlí.

Í könnun sem Viðskiptablaðið gerði meðal markaðsaðila um væntingar til ársins dagana 5.-9. janúar bjóst meirihluti svarenda við því að stýrivextir yrðu 5-6% í lok ársins en tæplega 30% svarenda töldu að stýrivextir yrðu 6-7% í árslok.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaði vikunnar.