Tæp 400 félög sem skráð eru í kauphöll Lundúna (e. London Stock Exchange) eiga sér starfsstöðvar í skattaskjólum á borð við Bresku Jómfrúareyjar, Panama eða aðrar Karabískar eyjur. Samanlagt er virði þessara fyrirtækja 225 milljarðar sterlingspunda, sem eru ríflega 39,8 þúsund milljarðar íslenskra króna.

Forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, finnur nú fyrir auknum þrýstingi fyrir því að eitthvað sé gert í stöðu mála, en nú stendur yfir þing hagfræðinga í Lundúnaborg sem vilja að auknari aðgerðir verði teknar til þess að gera alfarið út af við skattaskjól. Það er þeirra skoðun að þau séu að öllu leyti slæm, og hafi aðeins neikvæð áhrif á efnahagskerfi heimsins.

Heil 129 fyrirtæki af þessum tæplega 400 eru skráð í Guernsey, sem er undir verndarvæng bresku krúnunnar. Bresku Jómfrúareyjar hýsa þá 42 slík félög. Þessi þjóðríki auk annarra sem fyrr voru nefnd eru talin hátt á listum um þau svæði hvar ríkir hin mesta fjárhagsleg leynd - og margsstaðar veita þau mikla skattaafslætti.

„Ef þessi félög vilja njóta heiðursins og þess góða orðstírs sem af skráningu í kauphöll Lundúna kemur, þá ættu þau ekki að fá að skrá sig í þekktum leyndarríkjum,” segir Nick Dearden, formaður Global Justice Now sem tók saman þessi tæplega 400 fyrirtæki.