Gjaldþrot Hótel Borealis fyrir ári síðan nam tæplega 407 milljónum króna, en skiptum á búinu lauk 30. nóvember síðastliðinn.

Hótelreksturinn, sem var í nafni fyrirtækisins Sogið Grímsnesi ehf., fór fram í húsnæði á Efri-Brú, sem hýsti meðferðarheimilið Byrgið um tíma. Grímsnes heitir eftir landsnámsmanninum Grími en það liggur á milli áramóta Sogs og Hvítár.

Áður hafði meðferðarheimilið verið til húsa í Rockville, en stofnandi þess, Guðmundur Jónsson, var dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot árið 2008 og í kjölfarið var meðferðarheimilinu lokað.

Í umfjöllun Fréttablaðsins um gjaldþrotið fyrir ári síðan kom fram að ferðamannahópi hefði verið vísað frá hótelinu vegna gjaldþrotsins, en viðskiptavinir Hópkaups sem keypt hefðu tilboð í gistingu myndu fá endurgreitt.

Reynir Þór Garðarsson var skipaður skiptastjóri þrotabúsins, en í tilkynningu hans segir að eignir sem hafi fundist í búinu hafi einungis dugað til að efna kröfur samkvæmt lagagreinum gjaldþrotalaga sem vísa til afhendingar á eignum til sannanlegra eigenda og kostnað af skiptunum sjálfum.