Veitingastaðurinn Hard Rock Café á Íslandi tapaði 395 milljónum króna í fyrra, en hafði tapað 184 milljónum á opnunarárinu 2016, og var um síðastliðin áramót með 380 milljóna króna neikvætt eigið fé. Fréttablaðið sagði frá tapinu í morgun .

Rekstrartekjur námu 800 milljónum króna, en rekstrargjöld 1.174 milljónum. Þar af var kostnaðarverð seldra vara 259 milljónir, launakostnaður 505 milljónir, „annar rekstrarkostnaður“ 337 milljónir, en gera má ráð fyrir að sá liður feli meðal annars í sér leigugreiðslur fyrir húsnæðið við Lækjargötu, og afskriftir 73 milljónir. Nettó fjármagnsgjöld námu 21 milljón.

Staðurinn opnaði í október 2016 svo tölurnar fyrir það ár eru öllu lægri. Rekstrartekjur námu 157 milljónum, en rekstrargjöld 328 milljónum. Hlutföll gjaldaliða voru svipuð og 2017, og nettó fjármagnsgjöld námu 13 milljónum. Tap félagsins nam því 184 milljónum það ár.

Heildareignir námu 772 milljónum um síðustu áramót og drógust saman um 4% milli áramóta. Skuldir jukust um 30% milli ára og námu 1152 milljónum, og var eigið fé því neikvætt um 380 milljónir króna, samanborið við 85 milljóna neikvætt eigið fé í lok árs 2016.

Laun og launatengd gjöld námu 505 milljónum eins og áður kom fram, en þar af voru greidd laun 420 milljónir. Ársverk voru 85, og meðallaun voru því 412 þúsund krónur á mánuði.