Nú þegar rúm vika er liðin frá því að Jón von Tetzchner hleypti af stokkunum vafranum Vivaldi hafa 400 þúsund notendur halað honum niður í tölvur sínar.

„Það eru fleiri en samanlagður íbúafjöldi Íslands - og mjög nærri fjölda íslensku sauðkindarinnar,“ segir Jón í fréttatilkynningu.

Hann segir jafnframt að niðurstöðurnar séu ótrúlegar fyrir vafra sem sé aðeins á byrjunarstigi. Hann segir hins vegar að það séu miklu fleiri þarna úti sem vilji vafra sérsniðinn að þeirra þörfum, og býst við að mun fleiri muni sækja sér lausnina.