Um 15 þúsund einstaklingar og fyrirtæki hafa nýtt sér þau ýmsu úrræði sem í boði eru fyrir viðskiptavini Íslandsbanka í greiðsluerfiðleikum samkvæmt tilkynningu frá bankanum. Þar af hafa rúmlega fimm þúsund aðilar nýtt sér úrræði vegna bílalána.

„Íslandsbanki Fjármögnun reið á vaðið í nóvember á síðasta ári og bauð viðskiptavinum sínum höfuðstólslækkun sem nemur allt að 25% af  bílalánum í erlendri mynt og 5% af verðtryggðum bílalánum. Íslandsbanki Fjármögnun hefur þannig gengið einna lengst í úrræðum af þessu tagi, bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki og hafa samtals um 4000 aðilar nýtt sér höfuðstólslækkun vegna bílalána," segir í tilkynningunni.

„Í kjölfar niðurstöðu héraðsdóms þann 12. febrúar sl., sem fjallaði um lögmæti gengistryggðs bílaáláns hjá fjármögnunarfyrirtækinu Lýsingu, tilkynnti Íslandsbanki að þeir viðskiptavinir sem hafa nýtt sér og munu nýta sér úrræði bankans til höfuðstólslækkunar hafa ekki fyrirgert mögulegum betri rétti sínum komist Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að gengistryggð bílalán séu ólögleg," kemur fram í frétt frá Íslandsbanka.