Í janúar 2017 voru að jafnaði 193.100 manns á aldrinum 16-74 ára á vinnumarkaði, en það jafngildir 80,3% atvinnuþátttöku, en af þeim voru 185.300 starfandi og 7.900 án vinnu og í atvinnuleit.

Var því hlutfall atvinnulausra af vinnuafli 4,1% en hlutfall starfandi af mannfjölda var 77,1% að því er kemur fram í tölum Hagstofunnar .

Við samanburð á tölum milli ára sést að atvinnuþátttakan dróst saman um 1,2 prósentustig á sama tíma og fjöldi starfandi jókst um 1.400 manns. Á sama íma fjölgaði atvinnulausum um 2.600 manns og hlutfall þeirra af vinnuaflinu hækkaði um 1,3 prósentustig.

Minni árstíðarleiðrétt atvinnuleysi

Ef horft er til árstíðarleiðréttra talna töldust atvinnulausir í janúar vera 7.300 sem jafngildir 3,6% atvinnuleysi sem er hækkun úr 3,0% atvinnuleysi í desember.

Ef horft er hálft ár aftur í tímann sést að atvinnuleysi stendur í stað, en ef horft er 12 mánuði aftur í tímann hefur það lækkað lítillega eða um 0,2 prósentustig.

Hefur hlutfall starfandi lækkað lítillega á síðustu sex mánuðum eða um 0,3 stig en ef horft er til 12 mánaða hefur hlutfallið aukist um 0,7 stig.