*

mánudagur, 25. janúar 2021
Innlent 8. maí 2020 14:27

41 milljóna hagnaður Nýsköpunarsjóðs

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hagnaðist um 41 milljón króna árið 2019 og jókst hagnaðurinn lítillega frá fyrra ári.

Ritstjórn
Huld Magnúsdóttir er framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.
Haraldur Guðjónsson

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins sem fjárfestir í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum, hagnaðist um 41 milljón króna árið 2019 og jókst hagnaður lítillega frá fyrra ári er hagnaðurinn nam 39 milljónum króna. Þetta kemur fram í nýútgefinni ársskýrslu sjóðsins.

Afkoma af eignarhlutum í félögum nam 88 milljónum króna en alls námu fjármunatekjur 168 milljónum króna. Sjóðurinn á eignarhluti í 23 fyrirtækjum og eru fyrirtæki líkt og Genís, Dohop, Florealis, Kaptio og Klappir grænar lausnir þar á meðal.

Eignir sjóðsins námu 4,2 milljörðum króna í lok síðasta árs og eigið fé sömuleiðis 4,2 milljörðum. Fjórir starfsmenn starfa hjá sjóðnum en laun og launtengd gjöld námu 83 milljónum króna. Huld Magnúsdóttir er framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.

Fimm manns sitja í stjórn sjóðsins og er Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins stjórnarformaður. Aðrir stjórnarmenn eru Áslaug María Friðriksdóttir, stafrænn ráðgjafi hjá Sjá viðmótsprófunum, Hákon Stefánsson, framkvæmdastjóri fjárfestingafélagsins InfoCapital, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, og Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands