41% samdráttur varð á gistingu í gegnum Airbnb, sem og sambærilegar síður, í janúarmánuði 2020 samanborið við 2019. Heildarfjöldi seldra gistinátta dróst aftur á móti saman um 1,7%. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar.

Samhliða samdrætti í heimagistingu varð aukning í annarri tegund gistinga. Gistinóttum á hótelum fjölgaði um 7%, tíu prósent aukning á gistiheimilum og gistinóttum á öðrum gististöðum, svo sem farfuglaheimilum og orlofshúsum, voru 13% fleiri í janúar þessa árs samanborið við 2019.

Tölur Hagstofunnar leiða einnig í ljós að hótelherbergjum á landinu fjölgaði um tæp 8,9% milli samanburðarmánaða. Mest var fjölgunin á Vesturlandi og Vestfjörðum, rúmur fimmtungur, en herbergjum á Suður- og Austurlandi fjölgaði um tæp 17%. Nýting herbergja jókst á Austurlandi um 4,4% en var þrátt fyrir það sú næstversta á landinu, 18,3%. Verst var nýtingin á Norðurlandi, 14,4%, og dróst saman um 6,6 prósentustig milli samanburðarmánaða. Herbergjanýting á höfuðborgarsvæðinu stóð í stað og var tveir þriðju.

„Greiddar gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum voru um 495.000 í janúar síðastliðnum en þær voru um 503.000 í sama mánuði árið áður. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 346.000, þar af 291.600 á hótelum. Gistinætur í íbúðagistingu, farfuglaheimilum o.þ.h. voru um 87.000 og um 61.000 á stöðum sem miðla gistingu í gegnum vefsíður á borð við Airbnb,“ segir á Hagstofunni.

Tölur um fjölda gistinátta á hótelum, gistiheimilum og öðrum tegundum gististaða byggja á innsendum gögnum frá gististöðum og er fjöldi gistinátta áætlaður fyrir þá gististaði sem ekki hafa skilað inn tölum. Skil frá hótelum eru að jafnaði mjög góð og bárust t.d. tölur frá 88% hótela fyrir janúar 2020. Tölur um fjölda gistinátta sem miðlað er í gegnum vefsíður á borð við Airbnb byggjast á svörum úr Landamærarannsókn Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands og er óvissa við það mat hærri en við mat á fjölda gistinátta frá hefðbundnum gististöðum.