SPRON hefur ákveðið að afnema skilyrði um önnur bankaviðskipti á 4,15% íbúðalánum. Þessi lán eru nú öllum opin hjá SPRON hvar sem bankaviðskipti lántakanda eru. Áður hafa dótturfélög SPRON gert slíkt hið sama og er SPRON þannig fyrsta bankastofnunin á landinu sem stígur þetta skref til fulls og gerir ekki kröfur til lántakanda um önnur viðskipti. Afnám skilyrða um önnur viðskipti gildir einnig fyrir þá sem þegar hafa tekið 4,15% íbúðalán hjá SPRON. Lánin eru að öðru leyti háð útlánareglum SPRON, þ.á m. að lánið sé á fyrsta veðrétti.

SPRON hefur fundið fyrir mikilli óánægju meðal almennings með að þurfa að binda sig í viðskipti til allt að 40 ára til að eiga möguleika á að fá íbúðalán með 4,15% vöxtum og vill með þessari ákvörðun koma til móts við skýran vilja fólks um að aflétta þessari kvöð.

Þeir sem taka Íbúðalán hjá SPRON með 4,15% vöxtum geta lækkað vaxtakostnað sinn enn frekar með því að skrá sig í fjölskylduþjónustu SPRON því þeir fá hluta af greiddum vöxtum vegna íbúðalána endurgreidda.