Um 509 m.kr. hagnaður varð af rekstri Og fjarskipta hf. (Og Vodafone) árið 2004 fyrir skatta samanborið við 570 m.kr. tap árið áður. Sé tekið tillit til reiknaðs tekjuskatts nam hagnaður félagsins 416 m.kr. árið 2004 samanborið við 445 m.kr. tap árið áður. Vöxtur félagsins heldur áfram en tekjur námu 6.927 m.kr. á liðnu ári borið saman við 6.205 m.kr. árið áður. Þetta er 12% veltuaukning milli ára.

EBITDA af reglulegri starfsemi nam 1.930 m.kr. og jókst um 20% frá árinu 2003 þegar hún var 1.611 m.kr. EBITDA hlutfall af sölutekjum og reglulegri starfsemi nam 27,9% árið 2004.

Og Vodafone hefur hafið aðlögun reikningsskila að alþjóðlegum reikningsskilastöðlum og endurspeglast það í framsetningu uppgjörsins.

Kostnaðarverð seldrar þjónustu nam 3.917 m.kr. árið 2004 og hefur hækkað um 7% frá sama tíma í fyrra. Framlegð tímabilsins nam 3.010 m.kr. og hefur hækkað um 19% milli ára, var 2.534 m.kr. árið 2003. Rekstrarhagnaður árið 2004 nam 885 m.kr. í samanburði við rekstrartap fyrra árs að upphæð 146 m.kr.

¿Öll helstu rekstrarmarkmið Og Vodafone náðust á síðasta ári. Stöðugur vöxtur varð á tekjum félagsins, markaðshlutdeild jókst og í heild var afkoman góð. Á árinu var lagður grunnur að fjölgun tekjustofna félagsins og bar þar hæst kaup á 365 fjölmiðlunum. Með þeim kaupum eru skapaðir nýir vaxtarmöguleikar fyrir samstæðuna, hvort sem horft er til fjarskipta eða fjölmiðla sérstaklega eða saman. Við munum á yfirstandandi ári leggja áherslu á áframhaldandi sókn á fjarskipta- og fjölmiðlamarkaði. Á fjarskiptamarkaði munum við auka samstarf og samvinnu við alþjóðafélagið Vodafone, en það mun skila viðskiptavinum okkar spennandi vörunýjungum á árinu. Á fjölmiðlamarkaði verður áfram unnið að innleiðingu á Digital Ísland auk þess sem ný útvarpsstöð ¿ talmálsstöð ¿ verður sett í loftið. Prentmiðlar félagsins hafa verið í stöðugri sókn sem við búumst við að haldi áfram á þessu ári. Framundan eru því spennandi tímar þar sem Og Vodafone samstæðan mun halda áfram að kynna til leiks nýjar vörur og þjónustuleiðir og halda þannig uppi öflugri samkeppni til hagsbóta fyrir neytendur¿, segir Eiríkur S. Jóhannsson, forstjóri Og Vodafone.

Eiginfjárstaða Og Vodafone er sterk og nemur eigið fé 7.736 m.kr. í árslok. Það hefur því aukist um 2.344 m.kr. frá árinu áður. Þetta skýrist fyrst og fremst af aukningu hlutafjár vegna kaupa á dótturfélögunum 365 ljósvakamiðlum og 365 prentmiðlum (sjá bls. 4). Eiginfjárhlutfall Og Vodafone nemur 37%. Veltufjárhlutfall er 0,67. Endurfjármögnun félagsins lauk í janúar. Að teknu tilliti til hennar má gera ráð fyrir að veltufjárhlutfallið sé núna um 1.