Ríkisendurskoðun birti í dag úttekt á ársreikningaskilum sjálfseignarstofnana og sjóða sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, líkt og minningar- og styrktarsjóðir. Embættið segir mikilvægt að brugðist sé við lágu skilahlutfalli sem allra fyrst en Ríkislögreglustjóri hefur metið að veruleg áhættu sé af því að slíkar stofnanir og sjóðir verði notaðar til að þvætta ólögmætan ávinning.

Alls bar 693 sjóðum og stofnunum að skila ársreikningi til Ríkisendurskoðunar fyrir rekstrarárið 2021. Í desember 2022 höfðu 403 staðfestir sjóðir og stofnanir uppfyllt þessa skyldu en ársreikningar 290 sjóða og stofnana ekki borist embættinu. Höfðu því um 58% ársreikninga borist tæpum sex mánuðum eftir eindaga skila.

Ríkisendurskoðun vekur athygli að því að 42 virkir sjóðir hafa aldrei skilað ársreikningi til embættisins þrátt fyrir árvissar ítrekanir þar um.

„Að mati Ríkisendurskoðunar er mikilvægt að brugðist verði við sem allra fyrst og allra leiða leitað til að bæta skil ársreikninga þessara aðila. Á undanförnum árum hefur Ríkisendurskoðun margoft bent stjórnvöldum á að virkari lagaúrræði þurfi til að knýja fram skil á þessum ársreikningum án þess að brugðist hafi verið við þeim ábendingum,“ segir í tilkynningu Ríkisendurskoðunar.

Eignir 48 sjóða sem skiluðu ársreikningi fyrir 2021 eru undir 500 þúsund krónur. Þar af voru þrettán sjóðir eignalausir í árslok 2021. Af 403 stofnunum og sjóðum sem skiluðu ársreikningi fyrir árið 2021 voru 193 sjóðir með tekjur á árinu. Af þeim 210 sjóðum sem ekki höfðu tekjur á árinu voru 97 sjóðir ekki með nein gjöld og af þeim voru fjórir sjóðir hvorki með tekjur né gjöld og voru að auki eignarlausir í lok árs 2021.