Hagnaður af rekstri Eignarhaldsfélagsins Verðbréfaþing hf. nam 101,5 m.kr. á árinu 2004 eða sem samsvarar tæplega 42% arðsemi eigin fjár. Þetta er mun betri afkoma en á árinu 2003 en þá nam hagnaður 43,6 m.kr. Í áætlunum var gert ráð fyrir innan við 15% arðsemi eigin fjár, en stefna stjórnarinnar er að arðsemin verði að jafnaði á bilinu 10 til 15%. "Afkoma félagsins endurspeglar afskaplega hagfelldar aðstæður á verðbréfamarkaði sem vikið var að hér á undan," sagði stjórnarformaður Kauphallarinnar í ræðu sinni.

Afkoma beggja dótturfélaganna var umfram áætlanir. Hagnaður Kauphallarinnar nam 74 m.kr. og hagnaður Verðbréfaskráningar 27,5 m.kr. Lagt er til að arður sem greiddur verði til hluthafa nemi 50 m.kr. eða 37% af nafnverði hlutafjár og um helmingi hagnaðar.