Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar um landsframleiðslu fyrir allt árið 2006 nam hún 1.163 milljörðum króna og jókst að raungildi um 4,2% frá fyrra ári. Þessi vöxtur kemur í kjölfar 7,1% vaxtar á árinu 2005.

Vöxt landsframleiðslunnar á liðnu ári má, líkt og undanfarin þrjú ár, öðru fremur rekja til aukinnar einkaneyslu og fjárfestingar en á móti vegur aukinn innflutningur, langt umfram aukningu á útflutningi segir í frétt Hagstofunnar.

Laun- og fjármagnsgjöld til útlanda jukust mun meira en nam aukningu launa- og fjármagnstekna frá útlöndum og þrátt fyrir jákvæða þróun viðskiptakjara aukast þjóðartekjur á árinu 2006 mun minna en landsframleiðslan eða um 1,2% samanborið við 7,9% vöxt árið áður.