Hagvöxtur var nokkuð meiri í Bandaríkjunum á öðrum ársfjórðungi en áður hafði verið gert ráð fyrir. Hagvöxturinn nam 4,2%, samkvæmt upplýsingum frá viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna sem birtar voru í dag. Fram kemur í umfjöllun bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal að tölurnar sýni að gangurinn í efnahagslífinu sé betri en búist hafði verið við. Reiknað hafði verði með 3,8-4% hagvexti á fjórðungnum.

Mestu munar um að fjárfestingar í atvinnulífinu reyndust meiri en spár gerðu ráð fyrir auk þess sem meira var sett í rannsóknir og þróun.

Blaðið segir bandaríska seðlabankann hafa í desember í fyrra spáð því að hagvöxtur verði 2,8-3,2% á þessu ári. Í júní hafi spáin hins vegar verið endurskoðuð, dregið úr henni og megi búast við 2,1-2,3% hagvexti.