Hinn 7. apríl síðastliðinn féll á gjalddaga ríflega 4,2 milljarða króna lán Hafnarfjarðarbæjar hjá írsk-þýska bankanum Depfa bank. Að sögn Guðmundar Rúnars Árnasonar, bæjarstjóra Hafnarfjarðar, hafa enn ekki náðst samningar um endurfjármögnun lánsins við Depfa en hann segir samningaviðræður við bankann í fullum gangi. „Ég er bjartsýnn á að samningar náist á næstu dögum eða vikum,“ segir Guðmundur Rúnar í samtali við Viðskiptablaðið.

Til viðbótar þessu láni hefur Hafnarfjarðarbær tekið annað, og stærra, lán hjá sama banka sem fellur á gjalddaga á næsta ári. Upphæð þess láns er 5,1 milljarður króna. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að í skilmálum lánanna sé gjaldfellingarheimild þannig að gjaldfalli annað þeirra megi gjaldfella hitt lánið. Ekki er ljóst hvort stærra lánið er einnig gjaldfallið. Aðspurður um þetta segir Guðmundur Rúnar að í samtölum sem bærinn á við Depfa sé ekki talað um annað en að stærra lánið verði greitt á þeim gjalddaga sem áður hefur verið samið um. Viðskiptablaðið hefur leitað til Depfa bank og spurst fyrir um hvort stærrra lánið sé gjaldfallið en þar fengust þau svör að stefna bankans sé að tjá sig aldrei um einstaka viðskiptavini. „Ég mun ekki einu sinni segja þér hvort við eigum aðild að viðskiptunum,“ segir í tölvupóstsvari frá Oliver Gruss, yfirmanni samskiptasviðs bankans.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðið sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.