Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir GAJU, gas- og jarðgerðarstöð SORPU bs, en hún getur tekið við allt að 30 þúsund tonnum af lífrænum heimilisúrgangi og 10 þúsund tonnum af svokölluðum fljótandi lífrænum heimilisúrgangi.

Leyfið gildir til 20. október 2036, en með tilkomu GAJU verður urðun á lífrænum úrgangi frá heimilum á höfuðborgarsvæðinu hætt.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um fyrir ári síðan fóru framkvæmdir við gas- og jarðgerðarstöðina 1,4 milljarða framúr kostnaðaráætlun, svo heildarkostnaðurinn stefndi þá í að verða ríflega 4,2 milljarðar króna. Í kjölfarið sagði stjórn Sorpu Birni H. Halldórssyni framkvæmdastjór a samlagsfélagsins upp störfum.

Með vinnslunni í GAJA er hugsunin að bæði orkan og næringarefnin sem felast í lífrænum heimilisúrgangi verði endurheimt og næringarefnunum skilað aftur inn í hringrásarhagkerfið eins og það er orðað í fréttatilkynningu.

Að hætta að urða lífrænan úrgang frá höfuðborgarsvæðinu er þar sagt vera gríðarstórt loftslagsmál sem dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda um sem nemur 90.000 tonnum af koltvísýringi á ári. Það samsvari tæpum 10% af markmiðum stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030.

GAJA var gangsett til prófana 6. ágúst 2020 eftir að hafa fengið undanþágu frá starfsleyfiskröfu. Öll meðhöndlun GAJU á úrgangi er innandyra. Það er gert til að lágmarka lyktarmengun frá starfseminni. Fullvinnsla moltu innanhúss eins og gert er í GAJU er einsdæmi á Íslandi.

Í frétt á vef Umhverfisstofnunar þar sem sagt er frá útgáfu starfsleyfisins segir meðal annars:

„Umhverfisstofnunin hefur tekið ákvörðun um útgáfu á starfsleyfi til handa SORPU til reksturs gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi. SORPA hefur heimild til að taka á móti allt að 30.000 tonnum á ári af lífrænum heimilisúrgangi og allt að 10.000 tonnum af fljótandi lífrænum heimilisúrgangi til gasvinnslu og jarðgerðar, þ.e. vinnslu á jarðvegsbæti, í gas- og jarðgerðarstöð í Álfsnesi.“