Oddi var rekinn með 420 milljóna króna tapi á síðasta ári og 163 milljóna króna tapi árið áður. Hlutafé Odda var aukið um 368 milljónir króna til að takast á við  rekstrarerfiðleikana. Þá sagði Oddi upp 86 manns í janúar og lagði niður framleiðslu Plastprents og Kassagerðarinnar. Í stað innlendrar framleiðslu plasts- og bylgjuumbúða var stefnt á að efla vöruúrval og þjónustu vegna innfluttra umbúða.

Tekjur dragast saman um hálfan milljarða

Tekjur Odda drógust saman um hálfan milljarð eða 12% milli ára árið 2017 og námu 4 milljörðum. Launakostnaður hækkaði hins vegar  úr 1,75 milljörðum króna í 1,83 milljarða króna en stöðugildi voru 227. Kostnaðarverð seldra vara nam 1,7 milljörðum króna en var 1,9 milljarðar fyrir ári. Framlegð lækkaði úr 2,6 milljörðumí tæplega 2,3 milljarða króna.

Þá nam annar rekstrarkostnaður 708 milljónum en var 771 milljón króna fyrir ári.  Rekstrartap fyrir afskriftir (EBITDA) nam 269 milljónum króna en EBITDA var jákvæð um 100 milljónir króna árið 2016.

Segja má að afkoma Odda hafi verið nokkuð sveiflukennd undanfarin ár. 38,6 milljóna króna hagnaður var hjá félaginu árið 2015 en 42 milljóna króna tap árið 2014. Árið 2013 varð 61 milljónar króna hagnaður hjá Kvos, sem þá var móðurfélag Odda, en 69 milljóna króna tap árið 2012. „Við erum í breytingafasa og það tekur tíma að koma okkur í nýjan gír,“ segir Kristján Geir Gunnarsson, framkvæmdastjóri Odda. Þó sé félagið komið lengra í breytingaferlinu í dag en áætlanir félagsins hafi gert ráð fyrir.

Kristinn ehf., í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, útgerðarkonu úr Vestmannaeyjum, er aðaleigandi Odda.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .