Í desember 2017 festi Basko, móðurfélag 10-11 kaup á helmingshlut í Eldum rétt af stofnendum félagsins þeim Kristórfer Júlíusi Leifsyni og Val Hermannssyni. Kaupin voru svo samþykkt af Samkeppniseftirlitinu í mars á síðasta ári.

Samkvæmt ársreikningi Basko fyrir síðasta rekstrarár sem lauk í lok febrúar á þessu ári og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær nam kaupverðið á helmingshlutnum 420 milljónum króna og nam heildarverðmæti Eldum rétt því 840 milljónum króna.

Í september á þessu ári festi Skeljungur kaup á öllu hlutafé Basko en fram kom að Eldum rétt hafi ekki verið hluti af kaupunum. Eignarhlutur Basko í Eldum rétt er nú í eigu framtakssjóðsins Horn III sem rekinn er af Landsbréfum. Horn III var áður stærsti eigandi Basko með um 88% eignarhlut.

Eldum rétt skilaði 45 milljóna króna hagnaði árið 2018 en hagnaður félagsins dróst saman um 26 milljónir frá fyrra ári. Tekjur námu 815 milljónum og jukust lítillega milli ára. Þá nam EBITDA 74 milljónum króna og dróst saman um 42 milljónir frá fyrra ári.