Tap Reykjaneshafnar á árinu 2016 nam tæplega 428 milljónum króna í fyrra. Árið 2015 tapaði Reykjaneshöfn 396,6 milljónum króna. Samkvæmt efnahagsreikningi nema eignir hafnarinnar ríflega 3 milljörðum króna og bókfært eigið fé Reykjaneshafnar var neikvætt um 5,4 milljarða í árslok 2016.

Eiginfjárhlutfall Reykjaneshafnar var neikvætt um 179% í lok árs 2016. Stjórn Reykjaneshafnar leggur til að tap ársins verði flutt á eigið fé til jöfnunar síðar. Á árinu endurfjármagnaði höfnin afborganir að fjárhæð 133,5 milljónir hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Skuldir Reykjaneshafnar námu 8,5 milljarðar í árslok 2016 samanborið við ríflega 8 milljarða árið áður.

Minni uppbygging en gert var ráð fyrir

Í ársreikningi hafnarinnar er tekið fram að í áætlun ársins 2016 var gert ráð fyrir að kísilver Sameinaðs Sílikon hf. myndi hefja starfsemi á árinu og gekk það eftir en hófst þó seinna en fyrirhugað var. „Einnig var gert ráð fyrir að uppbygging á kísilveri Thorsil myndi hefjast á iðnaðarsvæði Helguvíkur með auknum tekjum því samfara fyrir höfnina. Það gekk ekki eftir en stenft er að uppbygging þess hefjist á árinu 2017,“ segir í ársreikningnum.

Það leiddi til þess að tekjuáætlanir ársins breyttust verulega miðað við samþykkta fjárhagsáætlun. Aukning var í þjónustutekjum og vörugjöldum sem má meðal annars rekja til framkvæmda á Keflavíkurflugvelli ásamt aukningu á flugumferð um völlin. Aflagjöld voru hins vegar lægri en ráð var gert fyrir vegna loðnubrests á vetrarvertíðinni 2016.

Sjá fyrir tekjuaukningu á komandi árum

„Uppbygging á iðnaðarsvæðinu við Helguvík mun leiða til tekjuaukningar á komandi árum. Hluti af þeirri uppbyggingu eru hafnarframkvæmdir í Helguvík til að mæta þeirri þjónustuþörf sem fyrirsjáanleg er í framtíðinni með tilkomu kísilvera og annars iðnaðar,“ segir í ársreikningum.

Einnig er tekið fram þar að í október 2015 hafi stjórn hafnarinnar óskar eftir greiðslufresti hjá kröfuhöfum hafnarinnar þar sem fyrir lá að hún myndi ekki geta staðið við skuldbindingar sínar. Frá þeim tíma hafa farið fram viðræður milli aðila um endurskipulagningu skulda. „Ekki er komin niðurstaða úr þeim viðræðum en vonir eru bundnar við að þeim ljúki á árinu 2017,“ er tekið fram.