Fjöldi þeirra sem býr í leiguhúsnæði hefur aukist og telja fleiri leigjendur líkur á því að þeir muni missa húsnæði sitt. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR um stöðuna á húsnæðismarkaði.

„Samkvæmt niðurstöðum könnunar MMR frá í september síðastliðnum hafði hlutfall Íslendinga sem bjó í leiguhúsnæði aukist um fjögur prósentustig á þremur árum. Á sama tímabili hafði hlutfall leigjenda sem töldu líkur á að þeir myndu missa húsnæði sitt aukist um átta prósentustig.

Samhliða um fjögurra prósentustiga aukningu þeirra sem búa í leiguhúsnæði hefur þeim sem búa í eigin húsnæði fækkað um þrjú prósentustig. Hlutfall þeirra sem bjuggu í eigin húsnæði mældist 72,0% í september 2013 en mældist 68,8% í september 2016. Á hinn bóginn mældist hlutfall þeirra sem bjuggu í leiguhúsnæði 17,7% í september 2013 en mældist 21,8% í september 2016,“ segir í frétt MMR um málið.

22% leigjenda hafa áhyggjur af því að missa húsnæðið

Af þeim sem sögðust búa í leiguhúsnæði töldu 78% að húsnæðið sem þau bjuggu í vera öruggt. Það er átta prósentustiga lækkun frá því í september 2013. Einnig töldu 22% leigjenda að líklegt væri að þeir myndu missa húsnæðið sitt, þar af 13% sem töldu það mjög líklegt og 9% sem töldu það frekar líklegt.

Stuðningsmenn Pírata líklegri að búa í leiguhúsnæði

„Yngri aldurshópar voru líklegri til að búa í leiguhúsnæði. Sem dæmi má nefna að 43% þeirra sem voru á aldrinum 18-29 ára bjuggu í leiguhúsnæði, en einungis 10% þeirra sem voru 50-67 ára. Hátt hlutfall fólks á aldrinum 18-29 ára, eða um 29%, kvaðst búa í foreldrahúsum.

Tekjulægri voru einnig mun líklegri til að búa í leiguhúsnæði en þeir sem höfðu hærri tekjur. Sem dæmi bjó yfir helmingur íbúa á heimilum þar sem heimilistekjur voru undir 250 þúsund krónur í leiguhúsnæði, en einungis 6% þeirra sem bjuggu á heimilum með heimilistekjur yfir milljón krónur á mánuði bjuggu í leiguhúsnæði,“ er einnig tekið fram í fréttinni.

Þegar rýnt er í tölur MMR er hægt að sjá þegar svör fólks er skoðað eftir stuðning við stjórnmálaflokka, þá eru það stuðningsmenn Pírata, sem eru líklegastir til þess að búa í leiguhúsnæði. 39% af Pírötum búa í leiguhúsnæði. Stuðningsmenn Vinstri grænna eru aftur á móti líklegastir til að búa í eigin húsnæði, en 80% þeirra búa í eigin húsnæði.

Könnunin var framkvæmd 20 til 26 september 2016. Samtals tóku 99,2% afstöðu til spurningarinnar árið 2016.