Mikil aukning hefur verið í fjölda sendinga í kringum netverslunartilboð síðustu árin, eða 140% aukning í fjölda pakkasendinga á stóru netverslunardögunum frá 2015. Frá því í fyrra nam aukningin 43%.

Frá árinu 2015 hefur fjöldi innlendra sendinga sem koma til Póstsins í kjölfarið á stóru netverslunardögunum Singles Day, Black Friday og Cyber Monday aukist um 140%. Fjöldi netverslana sem taka þátt í þessum dögum er alltaf að aukast og margar þeirra bjóða upp á vörur á miklum afslætti.

Ekkert lát er á fjölgun sendinga en nú í ár er aukningin 43% á milli ára og má búast við áframhaldandi þróun í þessa átt á komandi árum. Íslendingar eru að versla meira á netinu og innlend netverslun er sífellt að verða stærri þáttur í verslun landsmanna.

Sesselía Birgisdóttir, framkvæmdastjóri þjónustu- og markaðssviðs Póstsins segir frábært að sjá hvað netverslun er að færast í aukana í Íslandi og hve margar netverslanir eru að taka virkan þátt í þessum stóru verslunardögum. „Við erum að sjá mikla aukningu í fjölda sendinga í kringum þessa tilboðsdaga en teljum að þetta sé bara byrjunin og að netverslun hér á landi eigi ennþá töluvert inni,“ segir Sesselía.

„Það má segja að jólin og undanfari þeirra sé okkar tími, það flæðir allt af alls kyns sendingum hjá okkur sem við komum svo til skila fljótt og örugglega. Það er eitthvað svo hlýlegt að vera svona stór hluti af jólum landsmanna og viljum við undirstrika að okkar helsta markmið er að bæta þjónustuna sem við erum að veita öllum landsmönnum. Álagið hjá okkur eykst að sjálfsögðu mikið á þessum tíma og við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að koma öllu til skila hratt og örugglega.

Við höfum til að mynda tekið í notkun flýtiþjónustu á pósthúsum sem gengur út á það að létta á afgreiðslum, hún virkar þannig að starfsmaður er fyrir framan afgreiðslukassana með handtölvu og getur þannig afgreitt sendingar á meiri hraða en áður. Það er mjög gott að hafa í huga að það flýtir fyrir afgreiðslu og styttir biðtíma ef viðskiptavinir greiða af sendingum fyrir komu á pósthús en það er hægt að gera á minnpostur.is. Annars hlökkum við mikið til næstu vikna og ætlum svo sannarlega að koma öllu til skila fyrir jólin.“