Í nýrri könnun MMR kemur í ljós að 43% Íslendinga sem eru eldri en 18 ára hafa farið í Costco og önnur 49% hafi ekki farið en ætli að heimsækja verslunina við tækifæri. Tæplega 8% svarenda sögðust ekki ætla að fara í verslunina. Í könnunni kom í ljós að yngri svarendur og þeir sem bjuggu á tekjuhærri heimilum voru líklegri en aðrir að hafa heimsótt Costco.

Fleiri konur en karlar höfðu farið í Costco einu sinni eða oftar. Þar af höfðu 10% karla og 11% kvenna farið þrisvar sinnum eða oftar. Þá voru 51% svarenda undir 29 ára sem sögðust hafa heimsótt verslunina samanborið við 26% þeirra sem voru 68 ára og eldri. Nærri helmingur, eða 49% þeirra sem bjuggu á heimilum með heimilistekjur yfir milljón krónur á mánuði, söguðust hafa heimsótt Costco samanborið við 34% þeirra sem bjuggu á heimilum með undir 400 þúsund krónur í heimilistekjur á mánuði.

Ef litið er til stjórnmálaskoðana má sjá að stuðningsfólk Vinstri grænna hafði síst heimsótt Costco en stuðningsfólk Samfylkingarinnar var aftur á móti líklegast til að ætla ekki að fara í Costco. Sjálfstæðismenn voru aftur á móti lang líklegastir til að kjósa Costco, en 95% hafði annað hvort farið í verslunina eða ætla að fara þangað við tækifæri.