Rekstrartekjur Bakkavarar Group á fyrstu níu mánuðum ársins námu 13.582 milljónum króna (106,6 milljónum punda) og jukust um 4,9% í samaburði við sama tíma í fyrra. Í undirliggjandi rekstri jukust rekstrartekjur félagsins um 18%. Rekstrargjöld námu 11,7 milljörðum króna (92 milljónir punda) og jukust um 3,7% miðað við sama tíma í fyrra. Hagnaður félagsins fyrir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins nam 1.496 milljónum króna (11,5 milljónir punda). Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 2.219 milljónum króna (17,4 milljónir punda) á móti 2.046 milljónum króna (16 milljónir punda) á síðasta ári og jókst um 8,5 % milli ára.

Rekstrarhagnaður (EBIT) nam 1.859 milljónum króna í samanburði við 1.645 milljónir króna á fyrstu níu mánuðum 2003 og óx um 13%. Hagnaður tímabilsins af reglulegri starfsemi nam 1.112 milljónum króna (8,7 milljónir punda) í samanburði við 929 milljónir króna á sama tíma í fyrra og var því hagnaðarauking milli ára af reglulegri starfsemi 19,6%. Með kaupum félagsins í Geest Plc. í júní varð Geest að hlutdeildarfélagi Bakkavör Group eins og áður hefur verið greint frá. Í kjölfarið færir Bakkavör Group hluta af áætluðum hagnaði Geest í reikninga félagsins samkvæmt hlutdeildaraðferð og nemur hagnaðarhlutdeildin 216 milljónum króna (1.699 þúsundum punda) frá því 16.júní.

Salan góð

Afkoma Bakkavör Group á þriðja ársfjórðungi 2004 var góð og í samræmi við væntingar stjórnenda félagsins. Sala félagsins jókst um 21% á þriðja ársfjórðungi miðað við sama tímabil árið á undan og nam sala félagsins í ársfjórðungnum 4,6 milljörðum króna (36,2 milljónir punda). Sala hefur aukist í öllum vöruflokkum á tímabilinu, þó hlutfallslega mest á tilbúnum réttum og meðlæti en sala í þessum vöruflokkum hefur notið góðs af köldu sumri í Bretlandi. Sala á tilbúnum réttum (ready meals) jókst um 28,4% og 50,8% aukning var á sölu meðlætis (meal accompaniments) í fjórðunginum samanborið við sama tímabil í fyrra.

Hagnaður félagsins fyrir skatta var 522 milljónir króna (4,1 milljón punda) á þriðja ársfjórðungi og jókst um 43% milli ára. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 768 milljónum króna (6,0 milljónir punda) á móti 671 milljónum króna (5,3 milljónum punda) á sama tímabili í fyrra. Hlutfall EBITDA af rekstrartekjum var 16,6 % samanborið við 17,6 % árið áður. Hagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) var 646 milljónir króna (5,1 milljón punda) og jókst um 16% milli ára. Hagnaður á þriðja ársfjórðungi nam 432 milljónum króna (3,4 milljónir punda) samanborið við 260 milljónir króna (2 milljónir punda) á síðasta ári og nemur hagnaðaraukning félagsins því 66% frá þriðja ársfjórðungi 2003.