Þegar litið er til bókfærðs virðis fjárfestingareigna fasteignafélaganna þriggja sem skráð eru á markað – Reiti, Reginn og Eik – áttu Reitir verðmætasta fasteignasafnið í lok júní síðastliðinn. Safn félagsins var þá bókfært á 130,6 milljarða króna. Safn Regins var bókfært á 86,5 milljarða og Eikar á 81,7 milljarð. Samtals nam bókfært virði fasteignasafna félaganna því tæplega 300 milljörðum króna í lok júní. Þriðji ársfjórðungur félaganna lauk síðastliðinn föstudag og er von á uppgjörum frá félögunum eftir um einn og hálfan mánuð.

Fasteignafélögin þrjú hafa tekið þátt í uppgangi ferðaþjónustunnar undanfarin ár með því að fjárfesta í hótelbyggingum. Hlutdeild hótela í fasteignasafni Reita er þannig 17%, 12-13% hjá Eik og 12% hjá Reginn. Samanlagt bókfært virði hóteleigna fasteignafélaganna er um 43 milljarðar króna.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir forstjóri Reita frekari fjárfestingar í hótelum koma til greina þar sem tækifæri gefast til. Forstjóri Eikar segist ekki sjá fram á að félagið muni auka hlutdeild hótela í sínu eignasafni. Forstjóri Regins segir félagið leitast eftir því að vera áfram sterkt í hótelgeiranum, þó framleiðslukostnaður á nýjum hótelum sé of hár.

Nánar er fjallað um málið í Fasteignum, sérblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .