Tap Smáralindar ehf. nam 43 mkr. á árinu 2004. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 601 mkr. sem er rúmlega 16% aukning frá fyrra ári. Veltufé frá rekstri nam 307 mkr. og handbært fé frá rekstri nam 209 mkr. Í lok tímabilsins var eiginfjárhlutfall félagsins 44% að teknu tilliti til víkjandi láns frá móðurfélaginu.

Heildartekjur námu 1.148 mkr. Þar af námu leigutekjur 903 mkr. sem er um 9% hækkun frá fyrra ári.

Rekstrargjöld án afskrifta voru 546 mkr. sem er um 1. mkr. lækkun frá fyrra ári. Afskriftir námu 358 mkr. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 298 mkr. samanborið við 329 mkr. árið áður. Breytingin á milli ára skýrist af sveiflum á gengi íslensku krónunnar.

Heildareignir í árslok 2004 námu 10.300 mkr. þar af nam bókfært verð verslunar-miðstöðvarinnar Smáralindar 9.903 mkr.

Í árslok 2004 var eigið fé félagsins 1.856 mkr. og víkjandi lán frá móðurfélaginu nam 2.680 mkr. Samtals námu því víkjandi lán og eigið fé (eiginfjárígildi) 4.536 mkr. í árslok 2004.

Í lok tímabilsins námu heildarskuldir án víkjandi láns frá móðurfélaginu 5.764 mkr. þar af voru langtímaskuldir 5.309 mkr. Heildarskuldir félagsins án víkjandi láns frá móðurfélaginu lækkuðu um 478 mkr. milli ára.

Nú hafa 14 milljónir gesta komið í Smáralind frá því að verslunarmiðstöðin var opnuð fyrir rúmum 3 árum. Á árinu 2004 komu 10,4% fleiri gestir í Smáralind en árið þar á undan. Heildarvelta í verslunarmiðstöðinni jókst um 16% á milli ára sem er umtalsvert meira en sem nam aukningu í smásöluverslun á landinu öllu en áætlað er að hún hafi verið 4-5%.

Eftirspurn er eftir húsnæði í verslunarmiðstöðinni heldur enn áfram að aukast og er nú langt umfram það sem áætlanir félagsins gerðu ráð fyrir. Þannig eru langir biðlistar hjá félaginu eftir að leigurými losni. Þá hefur leiguverð farið stöðugt hækkandi eftir að það náði lágmarki á miðju ári 2003.

Áætlað er að afkoma af rekstri félagsins fyrir fjármagnsliði muni batna á þessu ári, m.a. vegna nýrra leigusamninga, hækkandi leiguverðs, áhrifa aukinnar veltu á veltutengda leigusamninga og lækkun rekstrarkostnaðar.