Að meðaltali fékk hver viðskiptavinur Landsbankans, sem afskrifuð voru fasteignalán hjá, um 4,3 milljónir afskrifaðar af fasteignaskuld. Alls fengu 3.517 einstaklinga slíka eftirgjöf. Landsbankinn tilkynnti í morgun að skuldir viðskiptavina bankans lækka um 23,1 milljarð króna vegna sértækra skuldaleiða bankans. Þar af eru um 15,2 milljarðar vegna niðurfellinga fasteignalána.

Um 4,4 milljarðar voru greiddir til rúmlega 54 þúsund viðskiptavina vegna 20% endurgreiðslu vaxta, sem greiddir voru frá ársbyrjun 2009 til 30. apríl 2011. Að meðaltali fékk því hver viðskiptavinur um 81 þúsund króna endurgreiðslu. Í flestum tilvikum komu þær til niðurfærslu skulda.

Þá voru um 3,5 milljarðar niðurfelldir af öðrum skuldum viðskiptavina umfram greiðslugetu, til dæmis yfirdráttur, skuldabréfalán og lánsveð. Rúmlega 1600 viðskiptavinir fengu slíkar afskriftir, eða rúmlega 2,1 milljón á hvern viðskiptavin.

Í tilkynningu frá Landsbankanum í morgun, um niðurstöður sértækra leiða bankans sem kynntar voru í maí, segir að meginmarkmið bankans á þessu ári hafi verið að hraða uppgjöri skuldamála heimilanna. Að mati forsvarsmanna bankans voru leiðir sem í boði voru of tafsamar og flóknar. Leiðir Landsbankans hafi skilað því að þó aðeins 2000 manns hafi sótt um 110% leiðina verða skuldir rúmlega 3.500 manns lækkaðar til samræmis við niðurstöðu leitar í gagnagrunnum bankans.

Aðrar fjármálastofnanir hafa ekki boðið sömu leiðir og Landsbankinn.