Kostnaður innanríkisráðuneytisins vegna ráðgjafarþjónustu nam 4,3 milljónum króna á tímabilinu frá 1. júlí í fyrra til 15. mars síðastliðins. Þetta kemur fram í svari Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra við fyrirspurn Svandísar Svavarsdóttur, þingflokksformanns Vinstri grænna.

Í annarri fyrirspurn kemur fram að innanríkisráðuneytið hefur sagt upp sex starfsmönnum, sem voru samanlagt í 3,7 stöðugildum. Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar, þingmanns Vinstri grænna.

Steingrímur spurði hve mörgum starfsmönnum ráðuneytisins hefði verið, eða yrði, sagt upp störfum vegna sérstakrar 5% niðurskurðarkröfu sem lögð hefði verið á aðalskrifstofur ráðuneyta í fjárlögum. Þremur starfsmönnum í 100% starfi var sagt upp sem og þremur sérfræðingum sem voru í 20 til 30% starfi.