Sala á íslensku neftóbaki hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) dróst saman um 43% á fyrstu tíu mánuðum ársins. Þetta kemur fram í svari Sigrúnar Óskar Sigurðardóttur, aðstoðarforstjóra ÁTVR, við fyrirspurn Viðskiptablaðsins, en stofnunin sinnir heildsölu neftóbaks.

Alls höfðu 21,6 tonn selst af tóbakinu fram til loka október, en á sama tíma í fyrra höfðu selst rúm 38,5 tonn. Í fyrra seldust alls 46 tonn af tóbakinu, sem var 3,1% aukning og mesta magn ÁTVR frá upphafi, en haldi salan áfram á svipuðu striki út árið má áætla að 26,2 tonn seljist á árinu.

Alls komu inn 1,5 milljarðar króna til ÁTVR í fyrra gegnum þessa tekjulind, en viðbúið er að upphæðin lækki skarplega nú. Ástæðuna má vafalaust rekja til framboðs tóbaksfrírra nikótínpúða, en innflutningur á þeim hófst síðla síðasta árs.