Samtals er lagt til að utanríkisráðuneytið og önnur ráðuneyti fái 430 milljónir króna á næsta ári vegna útgjalda sem tengjast aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu.

Þar af er áætlað að 180 milljónir fari í þýðingarkostnað og 250 milljónir fari í m.a. ferðakostnað og aðkeypta sérfræðiþjónustu.

Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í dag.

Þar segir meðal annars að ráða þurfi 24 nýja starfsmenn á þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins vegna aukinna verkefna í tengslum við umsókn Íslands að ESB. Áætlað er að þýða þurfi allt að 50 þúsund blaðsíður af lagatexta. „Áætlað er að verkefnið hefjist í ár og að því ljúki árið 2012," segir í frumvarpinu.

Þá kemur fram að af þeim 250 milljónum sem falli til aðallega vegna ferðakostnaðar og aðkeyptrar sérfræðiþjónustu séu 50 milljónir eyrnamerktar öðrum ráðuneytum en utanríkisráðuneytinu.

Gert er ráð fyrir að þessi kostnaðarliður utanríkisráðuneytisins og annarra ráðuneyta verði 150 milljónir króna á árinu 2011.

„Tekið skal fram að um er að ræða lauslega áætlun á þessu stigi og talsverð óvissa er um endanlega útkomu og verður áætlunin endurskoðuð þegar betri upplýsingar liggja fyrir," segir í frumvarpinu.