Greiningaraðilar spá því að fjárfestingar taki verulega við sér í ár. Það á einkum við um fjárfestingar atvinnuveganna, en í þjóðhagsspá sinni telur Íslandsbanki upp stórar fjárfestingar upp á samtals 433 milljarða króna á árunum 2016-2018. Þar má nefna kísilver fyrir 146 milljarða króna, virkjanir upp á 111 milljarða og hótel fyrir 52 milljarða.

Landsbankinn bendir jafnframt á það í sinni spá að fjárfesting í flugvélum muni aukast í ár. Í hagspá bankans segir að fjárfesting í hótel- og veitingahúsarekstri hafi numið 12,5 milljörðum króna í síðasta ári og jókst hún um 30% milli ára. Bankinn gerir ráð fyrir að fjárfesting í ferðaþjónustu muni standa undir langmestum hluta aukningar atvinnuvegafjárfestingar á þessu ári.

Meðaltal spáa greiningaraðila hljóðar upp á 16% vöxt fjárfestingar í ár og eru spár þeirra nokkuð samhljóða. Hins vegar greinir spánum verulega á hvað varðar fjárfestingu á næstu tveimur árum. Seðlabanki Íslands spáir um 5% vexti fjárfestingar á næsta ári en nánast engum vexti árið 2018 og er spá Íslandsbanka í sama takti. Landsbankinn og Arion banki spá hins vegar aðeins 3% vexti fjárfestingar á næsta ári, en yfir 10% vexti árið 2018.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .