Nemendur sem brautskráðust frá Háskólanum í Reykjavík í gær voru 438 talsins. Samtals luku 273 nemendur grunnprófi en 130 nemendur luku meistaranámi eða doktorsnámi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólanum. Á liðnu skólaári voru 3200 nemendur við skólann og hafa því hátt í 800 nemendur útskrifast á þessu ári.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forstöðumaður FKA og MBA frá HR árið 2002, flutti hátíðarávarp í gær og Richar Eiríkur Taehtinen, útskriftarnemandi í sálfræði við viðskiptadeild, flutti ávarp fyrir hönd nemenda.

Dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, fjallaði um eflingu menntunar í landinu í ávarpi sínu. „Eftir þann niðurskurð sem orðið hefur á síðustu árum er staðan sú að hverjum nemanda í háskóla á Íslandi fylgir aðeins helmingur þess fjármagns sem fylgir nemanda á öðrum Norðurlöndum. Þetta er nokkuð sem verður að laga, svo Ísland verði samkeppnishæft í menntun og nýsköpun til framtíðar. Menntamál eru efnahagsmál, ekki velferðarmál, því fjárfesting í menntun skilar auknum hagvexti og bættri samkeppnishæfni. Það vekur þó athygli að þrátt fyrir lélega fjármögnun hins opinbera, þá hefur háskólastarf á Íslandi blómstrað og vaxið undanfarin áratug, í kennslu, rannsóknum og nýsköpun. Það má þakka dugnaði þeirra starfsmanna sem mikið hafa lagt á sig til að ná þessum árangri. En þetta má ekki síður þakka því að opnað var fyrir samkeppni og nýsköpun í háskólastarfi á Íslandi - grundvöll þess að HR yrði til og næði þeim styrk sem hann hefur í dag.“