Ný könnun Capacent Gallup sem unnin er fyrir ASÍ sýnir að flestir eða 20,5% hafa orðið fyrir því að laun hafa verið skert án breytinga á starfshlutfalli.  Hjá 13,6% hefur starfshlutfall verið skert og ríflega 10% hafa orðið fyrir annarskonar skerðingu á launakjörum.

Þetta þýðir að 44,4% fólks í launaðri vinnu hefur lent í kjaraskerðingu frá hruninu í október 2008.

Karlar hafa orðið ver úti í kjaraskerðingunni en konur, höfuðborgarbúar ver heldur en íbúar á landsbyggðinni og elsti aldurshópurinn 55-75 hefur frekar orðið fyrir kjaraskerðingu en yngri hóparnir.

Þegar hópurinn sem segist ekki hafa orðið fyrir neins konar skerðingu í sinni vinnu var spurður hvort hann teldi líklegt eða ólíklegt að laun viðkomandi yrðu lækkuð á næstu mánuðum svöruðu 81,5% því að það væri ólíklegt.

Þegar sami hópur var spurður hvort hann teldi líklegt að starfshlutfall yrði lækkað á næstu mánuðum svöruðu 87% spurningunni neitandi.  Það er því greinilegt að óttinn við skerðingu á vinnutíma eða launakjörum fer minnkandi.

Sjá nánar á vef ASÍ.