Aðalfundur Flugleiða samþykkti tillögu sjtórnar félagsins um að greiða 60% arð af nafnvirði hlutafjár, sem samsvarar 1.515 milljónum króna. Þetta er 44% af hagnaði félagsins eftir skatta 2004. Tillagan var samþykkt samhljóða. Aðalfundur Flugleiða var haldinn í dag.

Eftirfarandi gáfu kost á sér til setu í stjórn FL GROUP og voru sjálfkjörin:

Árni Oddur Þórðarson

Gylfi Ómar Héðinsson

Hannes Smárason

Hreggviður Jónsson

Inga Jóna Þórðardóttir

Jón Þorsteinn Jónsson

Pálmi Kristinsson

Inga Jóna og Pálmi koma ný inn í stjórn í stað Benedikts Sveinssonar og Ragnhildar Geirsdóttur.

Tveir varamenn í stjórn:

Einar Örn Jónsson og Gunnar Þorláksson

Nýkjörin stjórn hélt sinn fyrsta fund eftir aðalfund félagsins og skipti með sér verkum. Hannes Smárason var kjörinn formaður og Hreggviður Jónsson varaformaður.

Á aðalfundinum voru kynntar skipulagsbreytingar sem gerðar hafa verið á yfirstjórn félagsins. Stjórnarformaður FL GROUP er nú í fullu starfi með meginábyrgð á stefnumótun, útrás og fjárfestingum fyrirtækisins og í lok maí tekur Ragnhildur Geirsdóttir við forstjórastarfi hjá FL GROUP, en Jón Karl Ólafsson hjá stærsta dótturfélaginu, Icelandair.

Þá var tilkynnt á fundinum að Árni Gunnarsson, markaðsstjóri Flugfélags Íslands verður framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands. Gunnar Már Sigurfinnsson, svæðisstjóri Icelandair í Frankfurt, verður framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair. Hlynur Elísson, fjármálastjóri Flugfélags Íslands og Bílaleigu Flugleiða, verður framkvæmdastjóri Rekstrarstýringarsviðs Icelandair.

Árni Gunnarsson ráðinn framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands.

Árni Gunnarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands í stað Jóns Karls Ólafssonar sem nýlega var ráðin forstjóri Icelandair. Árni hefur undanfarin ár verið sölu-og markaðsstjóri Flugfélags Íslands. Hann var áður framkvæmdastjóri Ferðaskrifstofu Íslands, framkvæmdastjóri Íslandsferða og forstöðumaður Icelandair Holidays. Hann einnig sem forstöðumaður áhættustýringar hjá þýska ferðaheildsalanum FTI í München á árunum 1993-1997. Árni, sem er 35 ára, lauk meistaraprófi í rekstrarhagfræði frá Háskólanum í Augsburg, Þýskalandi árið 1994. Eiginkona hans er Sigríður Bjarnadóttir, iðjuþjálfi og eiga þau tvo syni, Ingvar og Gunnar.

Gunnar Már Sigurfinnson ráðinn framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair

Gunnar Már Sigurfinnson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair. Gunnar Már Sigurfinnsson er 40 ára viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Hann hóf störf hjá Flugleiðum Innanlands í Vestmannaeyjum árið 1986 og vann þar samhliða námi og störfum á endurskoðunarskrifstofu Sigurðar Stefánssonar hf. í Vestmannaeyjum. Árið 1994 var Gunnar Már ráðinn sölu- og markaðsstjóri Flugleiða Innanlands. Í maí 1997 var hann ráðinn sem sölustjóri Icelandair í Þýskalandi með aðsetur í Frankfurt. Gunnar Már tók við starfi forstöðumanns áætlanagerða Sölu- og markaðssviðs hjá Icelandair árið 2000 og síðan starfi svæðisstjóra Icelandair í Þýskalandi, Hollandi og mið Evrópu sem hann hefur gengt þangað til nú. Gunnar Már er kvæntur Lindu Hængsdóttur og eiga þau tvö börn, Andra Stein og Silju.

Hlynur Elísson ráðinn framkvæmdastjóri rekstrarstýringarsviðs Icelandair

Hlynur hóf störf hjá Flugleiðum Innanlands árið 1995 sem fjármálastjóri, en hefur starfað sem forstöðumaður fjármálasviðs frá stofnun Flugfélags Íslands hf. 1997. Hlynur er fæddur í Reykjavík 1965. Hann útskrifaðist með B.S. próf í viðskiptafræðum frá Rockford College, Illinois, árið 1991. Hlynur er kvæntur Addý Ólafsdóttur og eiga þau einn son.

Einar Sigurðsson verður framkvæmdastjóri rekstrarstýringa- og þróunarsviðs FL GROUP sem leiðir stefnumótun samstæðunnar og markmiðasetningu og fylgir eftir árangri í rekstri dótturfélaga. Hann var áður framkvæmdastjóri hjá Flugleiðum.

Guðjón Arngrímsson mun stýra upplýsinga- og kynningardeild FL GROUP sem hefur með höndum kynningar- og samskiptamál samstæðunnar bæði inn á við og út á við. Hann var áður upplýsingafulltrúi Icelandair.

Hjörtur Þorgilsson verður upplýsingatæknistjóri FL GROUP en upplýsingatæknideildin stýrir og samhæfir upplýsingatækniþróun samstæðunnar. Hann var áður upplýsingatæknistjóri Icelandair.